Heildarhagnaður nam 4.626 m.kr. og samsett hlutfall var 94,6%, hið sama og fyrra ár. Hagnaður af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 1.695 m.kr. og afkoma af fjárfestingastarfsemi nam 4.500 m.kr. fyrir fjármagnsliði og skatta. Þar af nam söluhagnaður af eignarhlut Sjóvár í Kerecis 1.260 m.kr. Ávöxtun af fjárfestingareignum í stýringu var 9,0% á árinu og var góð í ljósi þróunar eignamarkaða og umfram viðmiðunarvísitölur. Óskráð hlutabréf skila bestu ávöxtuninni á árinu en afkoman er annars vel dreifð milli eignaflokka.
Tekjuvöxtur nam 11,6% á árinu og voru tekjur 31.273 m.kr. samanborið við 28.011 m.kr. árið áður, og styður sterk staða og ímynd félagsins við vöxtinn auk þess sem aukin umsvif í atvinnulífinu, einkum í ferðaþjónustunni, birtast í auknum iðgjöldum. Samhliða auknum umsvifum er tjónakostnaður að aukast umfram tekjur af vátryggingasamingum sem kallar á enn frekari greiningu tilvika og eftir atvikum skýrari aðgerðir til forvarna. Tjón ársins hækkuðu um 15,8% milli ára, námu 23.426 m.kr. á árinu 2023 samanborið við 20.228 m.kr. árið 2022. Tjónahlutfall ársins var 74,9% samanborið við 72,2% árið á undan. Tjónaþróun er í takt við áætlanir en stórtjón lita afkomu ársins líkt og fyrra árs. Neikvæð þróun í frjálsum ökutækjatryggingum skýrir hækkun tjónahlutfalls á milli ára en jákvæð matsþróun vegna eldri ára dempar tjónskostnað ársins 2023.
Kostnaðarhlutfall lækkar með vexti tekna af vátryggingasamningum og aukinni skilvirkni í grunnrekstri sem birtist í fækkun stöðugilda þrátt fyrir tekjuvöxt og fjölgun viðskiptavina. Skilvirkni hefur sömuleiðis aukist með uppbygging öflugra tækniinnviða og þróun nýrra þjónustuleiða sem hafa stuðlað að hraðari afgreiðslu og hærra þjónustustigi.
Þá fengu tæplega 32 þúsund tjónlausir viðskiptavinir okkar samtals 874 milljónir króna með Stofn endurgreiðslu á árinu. Var það 29. árið í röð sem við endurgreiðum tjónlausum viðskiptavinum í Stofni hluta iðgjalda sinna, en Sjóvá er eina tryggingafélagið á íslenskum markaði sem gerir slíkt. Að auki var á árinu komið til móts við Grindvíkinga með endurgreiðslu allra iðgjalda fjölskyldna og einstaklinga í bænum vegna óvissu sökum náttúruhamfara og fengu um 1.100 viðskiptavinir endurgreidd öll iðgjöld desembermánaðar, um 30 m.kr. Sjóvá endurgreiðir svo iðgjöld bruna- og fasteignatrygginga húseigna einstaklinga á meðan núverandi ástand ríkir.
Sjóvá er eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR 2023 sem er ein stærsta vinnustaðakönnun sem framkvæmd er á Íslandi. Þessi niðurstaða er ánægjuleg staðfesting á þeim miklu gæðum sem við búum að í okkar starfsfólki og áherslum í mannauðsmálum. Líkt og við höfum áður sagt þá helst ánægja starfsfólks í hendur við ánægju viðskiptavina.
Sjóvá mældist efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni 2023, sjöunda árið í röð, en ánægjuvogin mælir hversu ánægðir viðskiptavinir eru með þjónustu fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum og eru nokkrir þættir mældir sem hafa áhrif á ánægju viðskiptavina, þ.e. væntingar, ímynd, mat á gæðum, virði þjónustunnar og meðhöndlun kvartana. Árangur Sjóvár í Íslensku ánægjuvoginni byggir á markvissum aðgerðum og áherslum í þjónustu þar sem sífellt hefur verið unnið að því að bæta og einfalda þjónustuleiðir sem tryggja hröð og skilvirk samskipti við viðskiptavini. Samkvæmt könnun Prósent sem framkvæmd var á árinu 2023 á fyrirtækjamarkaði reyndist Sjóvá vera það fyrirtæki sem flestum stjórnendum íslenskra fyrirtækja dettur fyrst í hug þegar kemur að tryggingafélögum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Sjóvá er einnig fyrsta val þeirra stjórnenda sem tóku þátt í könnuninni. Framúrskarandi þjónusta hefur um árabil verið okkar leiðarljós, hvort sem þjónustan er veitt með stafrænum lausnum eða með beinum samskiptum í útibúum okkar um land allt.
Mikil gerjun hefur verið í stafrænum lausnum og þjónustuleiðum. Markviss vinna hefur verið lögð í að einfalda og bæta tjónaúrvinnslu og tryggja hröð og skilvirk samskipti við viðskiptavini okkar sem lenda í tjónum. Þróun tækniinnviða og stafrænna þjónustuleiða félagsins hefur skilað sér í hærra þjónustustigi og aukinni ánægju viðskiptavina, á sama tíma og hlutfall rekstrarkostnaðar félagsins lækkar. Sjóvá mælist með ánægðustu viðskiptavini tryggingafélaga, er með þéttasta útibúanet og fær á sama tíma hæstu einkunn tryggingafélaga þegar kemur að upplifun viðskiptavina á stafrænum þjónustulausnum tryggingafélaganna.
Sjóvá er jafnframt það tryggingafélag sem flestir Íslendingar myndu velja samkvæmt niðurstöðum mælinga EMC markaðsrannsókna og Prósent.
Á árinu hófum við sölu á nýrri vöru sem ætluð er ungu fólki. Í breyttum heimi hafa eignir og verðmæti fólks breyst, ekki síst yngri viðskiptavina okkar. Til að mæta þeirri þróun höfum við hafið sölu á einfaldri tryggingu sem nær yfir snjallsíma, önnur snjalltæki sem og reiðhjól. Snjalltryggingin hefur víðtækari vernd en aðrar sambærilegar tryggingar á markaði.
Sjóvá hlaut á árinu viðurkenningu FKA og Jafnvægisvogarinnar sem veitt er þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr í jafnréttismálum.
Sjóvá hlaut viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum sem veitt er af Stjórnvísi, Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi, og byggir á úttekt á stjórnarháttum meðal annars á grundvelli leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja.
Á landsþingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í maí sl. var Sjóvá veitt viðurkenning félagsins, Áttavitinn, fyrir stuðning sinn við starfsemi Landsbjargar. Til viðbótar við áralangan stuðning veitti Sjóvá Landsbjörg 142,5 milljóna styrk árið 2021 til kaupa á þremur nýjum björgunarskipum sem öll eru komin í notkun og farin að sanna gildi sitt. Var fyrsta skipið afhent í október 2022 í Vestmannaeyjum, annað skipið var afhent á Siglufirði í mars 2023 og þriðja og síðasta í desember 2023 í Reykjavík. Það er afar ánægjulegt að hafa getað stutt við þetta þarfa verkefni og er Sjóvá eftir sem áður stoltur samstarfs- og styrktaraðili Landsbjargar í forvörnum sem og tryggingum fyrir sjálfboðaliða félagsins.
Hlutverk Sjóvár er að tryggja verðmætin í lífi fólks og við lítum svo á að forvarnir séu besta tryggingin. Við leggjum okkur fram um að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og forvarnarstarf okkar er mikilvægur liður í þeirri þjónustu. Við vinnum faglega að því að takmarka áhættu og tjón með markvissum aðgerðum, viljum vera leiðandi í forvarnastarfi í samfélaginu og leggjum okkur fram um að fá almenning og fyrirtæki í lið með okkur svo við getum unnið saman að því að koma í veg fyrir slys og tjón.
Sem tryggingafélag höfum við aðgang að fjölþættum upplýsingum um tjón; hvar, hvenær og hvernig þau verða og hver þróun þeirra er. Allt getur þetta nýst okkur vel við mótun áherslna og skilaboða í forvörnum. Tjónadeild okkar er með puttann á púlsinum þegar kemur að þróun tjóna og breytingum á tíðni í tjónaflokkum, allt eftir tíð og breytingum í samfélaginu. Gögnin eru rýnd vel af starfsfólki tjónasviðs og þeim sem sinna áhættumati og forvarnastarfi og brugðist er við þegar ástæða er til. Þessar upplýsingar nýtum við bæði í þróun forvarnarstarfsins og eins í vinnu með einstökum fyrirtækjum í viðskiptum sem sum hver fá mánaðarlega tölfræðigreiningu á tjónum og nýta þær upplýsingar í forvarnastarfi sínu. Einnig fylgjumst við vel með þróun tjóna hjá einstaklingum í viðskiptum og í samfélaginu almennt. Forvarnastarfið er óhjákvæmilega árstíðabundið að hluta og tekur því ávallt mið af veðri og vindum. Þannig eiga sum skilaboð alltaf erindi á ákveðnum árstíma.
Á árinu 2023 var líkt og alltaf unnið að fjölbreyttum forvörnum, hvort sem um var að ræða forvarnir sem ætlað var að koma í veg fyrir slys á fólki eða tjón á eignum, stórum sem smáum.
Vatnstjón eru ein algengustu tjónin og því var líkt og oft áður lögð áhersla á að minna á mikilvægi forvarna og rétt viðbrögð í því samhengi. Við beindum athyglinni einnig að öruggri hleðslu raftækja á heimilinu, s.s. snjalltækja og rafmagnshlaupahjóla, en brunar vegna hleðslu raftækja hafa því miður aukist að undanförnu og skapast geta mjög hættulegar aðstæður í þeim. Þá hafa skýrslur lögreglu síðastliðin ár einnig sýnt að aukning hefur orðið að hjólreiðaslysum, samhliða aukinni notkun. Fyrir vikið fjölluðum við einnig um öryggi reiðhjólafólks á árinu.
Aukin tíðni stærri brunatjóna hefur sömuleiðis kallað á aðgerðir til að fræða og grípa til aðgerða til bættra brunavarna í mannvirkjum af ýmsum toga. Það er mikilvægt að koma í veg fyrir skaða, fyrst og fremst til að vernda líf og limi, og koma um leið í veg fyrir það tjón og þá sóun sem verður á verðmætum við slíka atburði. Þannig hafa tíðir brunar í atvinnuhúsnæði með búsetu til dæmis haft áhrif á áherslur okkar, enda dæmi um að þeir hafi haft skelfilegar afleiðingar á síðustu misserum. Við höfum aukið samskipti við eigendur slíks húsnæðis og lagt mikla áherslu á að allir hafi viðeigandi brunavarnir og að flóttaleiðir séu greiðfærar. Þessari vinnu verður haldið áfram af krafti á árinu 2024.
Sjóvá náði góðum árangri í UFS sjálfbærnimati Reitunar í júlí þegar félagið fékk einkunnina B2 og 78 stig af 100 mögulegum sem telst góð einkunn. Sjóvá mælist yfir meðaltali í umhverfis- og félagsþáttum og er á pari við meðaltal í stjórnarháttum í samanburði við önnur félög sem metin hafa verið. Matið gerir grein fyrir því hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Sjóvá hefur lengi keppst við að vera framarlega á sviði sjálfbærni og því er afar ánægjulegt að fá þessa góðu niðurstöðu.
Á árinu var sjálfbærninefnd Sjóvár sett á laggirnar sem mun stuðla að aukinni áherslu Sjóvár á sjálfbærni. Unnið var að framkvæmd fyrstu mikilvægisgreiningar sjálfbærniþátta hjá Sjóvá með aðkomu helstu hagaðila félagsins, sem eru starfsfólk, viðskiptavinir og aðrir notendur þjónustu, birgjar og þjónustuaðilar, hluthafar og stjórn auk sérfræðinga. Með slíkri greiningu er leitast við að afmarka hvaða sjálfbærniþættir hafa mesta þýðingu fyrir Sjóvá og hagaðila þess og ættu því að vera í forgrunni við ófjárhagslega upplýsingagjöf félagsins. Lögð hefur verið áhersla á að uppfylla kröfur og eftir atvikum undirbúa gildistöku löggjafar og tilskipana á sviði sjálfbærni frá Evrópusambandinu, svo sem reglugerð um flokkunarkerfi fyrir sjálfbæran rekstur fyrirtækja, EU taxonomy, og CSRD reglur um form og efni sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja og fjárfesta.
Allt frá skráningu félagsins á markað hefur það verið stefna stjórnar félagsins að Sjóvá sé arðgreiðslufélag og að greitt sé að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arðs að því gefnu að gjaldþol sé innan gjaldþolsviðmiða stjórnar. Stjórn mun leggja til við aðalfund að greiða út arð sem nemur 2,12 kr. á hlut fyrir rekstrarárið 2023 eða um 2.450 m.kr. sem verður greiddur út síðar í mánuðinum ef tillagan fær brautargengi. Félagið er fjárhagslega sterkt með gjaldþolshlutfall 1,40 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu og er innan gjaldþolsviðmiða stjórnar. Eiginfjárhlutfall eftir fyrirhugaða arðgreiðslu er 30,1% og fjárhagsstaða félagsins traust og félagið eftir sem áður fært um að standa þétt við bakið á viðskiptavinum og mæta ófyrirséðum áföllum í rekstri.
Í árslok 2023 voru hluthafar 1.146 en þeir voru 1.265 í ársbyrjun og fækkaði þeim því um 119 á árinu. 52,6% hluta eru í eigu lífeyrissjóða, 35,3% í eigu einstaklinga og fyrirtækja, 4,5% í eigu erlendra verðbréfasjóða, 3,4% í eigu innlendra verðbréfasjóða, 2,3% í eigu fjármálafyrirtækja, og 1,9% eigin hlutir.
Innleiddur hefur verið nýr reikningsskilastaðall, IFRS 17 um vátryggingasamninga. IFRS 17 tók við af IFRS 4 fyrir reikningsskilatímabil sem hófust frá og með 1. janúar 2023. Helstu breytingar felast í framsetningu á rekstrarreikningi og efnahagsreikningi sem eru með talsvert breyttu sniði auk þess sem ný hugtök eru innleidd í rekstrarreikningi og efnahagsreikningi og liðir endurflokkaðir. Ítarlegar upplýsingar um áhrif innleiðingarinnar er að finna í skýringum 5 og 6 í ársreikningi félagsins.
Á aðalfundi félagsins árið 2023 var samþykkt heimild stjórnar til að kaupa eigin hluti með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Keyptir hafa verið 21,8 milljón eigin hlutir á árinu 2023. Tilgangur endurkaupanna er að lækka útgefið hlutafé. Hlutafé samkvæmt efnahagsreikningi eftir kaup eigin hluta er um 1.157 m.kr.
Stjórn mun leita eftir nýrri heimild aðalfundar fyrir kaupum á eigin hlutum með framkvæmd endurkaupaáætlunar á árinu 2024 líkt og undanfarin ár. Markmið með endurkaupaáætlun er líkt og áður að lækka hlutafé félagsins og stuðla að hagkvæmri fjámagnsskipan.
Sá góði árangur sem við náðum í rekstri á árinu 2023 liggur fyrst og fremst í þeim mannauði og fyrirtækjamenningu sem við hjá Sjóvá búum yfir og leggjum okkur fram um að hlúa að.
Stjórn leggur nú til við aðalfund að gera breytingar á starfskjarastefnu þannig að stjórn fái heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun sem heimilar félaginu að gera kaupréttarsamninga við starfsfólk. Markmiðið er að tengja saman hagsmuni starfsmanna og hlutafa, auk þess sem áætlunin hjálpar til við að laða að hæft starfsfólk og auka tryggð innan félagsins. Kaupréttaráætlun skal uppfylla kröfur 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sem felur meðal annars í sér að kaupréttur að hlutabréfum skal ná til alls fastráðins starfsfólks félagsins, og er lagt til að hámarksfjárhæð verði 1,5 m.kr. á ári að kaupverði. Sú áætlun sem stjórn útfærir skal staðfest af Skattinum áður en hún er sett á fót.
Hermann Björnssonforstjóri
Björgólfur JóhannssonStjórnarformaður