Hlutverk Sjóvár er að tryggja verðmætin í lífi fólks og við lítum svo á að forvarnir séu besta tryggingin. Við leggjum okkur fram við að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og forvarnarstarf okkar er mikilvægur liður í þeirri þjónustu. Við vinnum faglega að því að takmarka áhættu og tjón með markvissum aðgerðum og viljum vera leiðandi í forvarnastarfi í samfélaginu. Við leggjum okkur fram um að fá almenning og fyrirtæki í lið með okkur svo við getum unnið saman að því að koma í veg fyrir slys og tjón. Það gerum við meðal annars með fræðslu, upplýsingagjöf, markvissri gagnaöflun og hagnýtingu niðurstaðna, auknu aðgengi að forvarnavörum og góðu samstarfi. Sjóvá styður einnig við ýmis forvarna- og velferðarmál með styrkveitingum og samstarfi við fjölbreytta aðila og stuðlar þannig að öruggara samfélagi með auknum lífsgæðum.
Stefna Sjóvár í forvörnum er yfirfarin ár hvert og unnin í góðu samstarfi ólíkra deilda. Hjá Sjóvá starfar verkefnastjóri forvarna í markaðsdeild sem hefur yfirumsjón með forvörnum almennt og sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf sem sinnir áhættuskoðunum og áhættumati. Þau vinna náið saman og funda reglulega. Við lítum hins vegar svo á að allt starfsfólk Sjóvár vinni að forvörnum og því leggjum við áherslu á fræðslu innanhúss og að öllum sé ljóst að forvarnir skipti máli. Stefna og áherslur í forvörnum eru bornar undir framkvæmdastjórn reglulega og starfsfólk upplýst um helstu verkefni sem unnið er að hverju sinni.
Sem tryggingafélag höfum við aðgang að fjölþættum upplýsingum um tjón; hvar, hvenær og hvernig þau verða og hver þróun þeirra er. Allt getur þetta nýst okkur vel við mótun áherslna og skilaboða í forvörnum. Oft eru það sömu tegundir tjóna sem eru algengastar milli ára en engu að síður er mikilvægt er að vera stöðugt vakandi fyrir þróun mála til að geta gripið til aðgerða þegar þess þarf.
Tjónadeild okkar er með puttann á púlsinum þegar kemur að þróun tjóna, sem og starfsfólk okkar í trygginga- og tölfræðigreiningu. Þau rýna þessi gögn vel með því starfsfólki sem sinnir forvarnastarfi og áhættumati og brugðist er við þegar ástæða er til. Þær upplýsingar nýtum við bæði í þróun forvarnarstarfsins almennt og eins í vinnu með einstökum fyrirtækjum í viðskiptum. Mörg fyrirtæki fá mánaðarlega tölfræðigreiningu á tjónum og nýta þær upplýsingar í forvarnastarfi sínu. Einnig fylgjumst við vel með þróun tjóna hjá einstaklingum í viðskiptum og í samfélaginu almennt.
„Ein algengasta orsök bruna á heimilum er út frá raftækjum og næstum tvöfalt líklegra er að það kvikni í út frá raftækjum sem verið er að hlaða uppi í rúmi eða sófa. Því er mikilvægt að hlaða tæki þar sem vel loftar um þau og hafa hleðslutæki á hörðu undirlagi. Útköllum slökkviliðsins vegna logandi rafhlaupahjóla og rafmagnshjóla hefur fjölgað ár frá ári og hafa heimili gjöreyðilagst í eldsvoðum út frá þeim. Það ætti helst ekki að hlaða þessi hjól innanhúss og mikilvægt er að hafa reykskynjara í rýminu þar sem hlaðið er.“
Á árinu 2023 var unnið að fjölbreyttum forvörnum, hvort sem um var að ræða forvarnir sem ætlað var að koma í veg fyrir slys á fólki eða tjón á eignum, stórum sem smáum. Forvarnastarfið er óhjákvæmilega árstíðabundið að hluta og tekur því ávallt mið af veðri og vindum. Þannig eiga sum skilaboð alltaf erindi á ákveðnum árstíma, ár eftir ár.
Vatnstjón eru ein algengustu tjónin hjá okkur og því var líkt og oft áður lögð áhersla á að minna á mikilvægi forvarna og rétt viðbrögð í því samhengi. Við beindum athyglinni einnig að öruggri hleðslu raftækja á heimilum, s.s. snjalltækja og rafmagnshlaupahjóla, en brunar vegna hleðslu raftækja hafa því miður aukist að undanförnu og skapast geta mjög hættulegar aðstæður. Skýrslur lögreglu síðastliðin ár hafa einnig sýnt að aukning hefur orðið á hjólreiðaslysum, samhliða aukinni notkun. Fyrir vikið fjölluðum við einnig um öryggi reiðhjólafólks á árinu.
Aukin tíðni stærri brunatjóna hefur sömuleiðis kallað á aðgerðir til að fræða og grípa til aðgerða til bættra brunavarna í mannvirkjum af ýmsum toga. Mikilvægt er að koma í veg fyrir skaða, fyrst og fremst til að vernda líf og limi, og einnig koma í veg fyrir það tjón og þá sóun sem verður á verðmætum við slíka atburði.
Við leitum fjölbreyttra leiða til að ná til viðskiptavina og landsmanna almennt með fræðslu og upplýsingagjöf um forvarnir. Þetta gerum við meðal annars með greinaskrifum í fjölmiðla og viðtölum, efni fyrir samfélagsmiðla (s.s. fræðslumyndböndum og leikjum), markpóstum til viðskiptavina, í hlaðvarpsþættinum Sjóvá spjallinu, forvarnatengdum gjöfum til viðskiptavina og fleira.
Með því að nýta fjölbreyttar miðlunarleiðir viljum við reyna að ná til sem flestra, vera virk í umræðunni og sýnileg í málaflokknum, þannig fólk viti að það geti leitað til okkar í þessum efnum. Aukin áhersla hefur verið lögð á forvarnartengd skilaboð á samfélagsmiðlum og skynsamlega notkun á markpóstum með tölvupósti til viðskiptavina okkar.
Sjóvá kom inn á Strava hreyfiappið á árinu með Sjóvá klúbbinn og er eitt af markmiðunum með þeirri viðveru að stuðla að hreyfingu, heilsu og forvörnum. Í lok árs voru meðlimir klúbbsins orðnir 730.
Við eigum í góðu samstarfi við fyrirtæki sem eru í viðskiptum við okkur á sviði forvarna, enda allra hagur að koma í veg fyrir að slys eða tjón hljótist af starfsemi þeirra. Forvarnastarf er ávallt unnið í góðu samstarfi við stjórnendur og tekur mið af þörfum fyrirtækjanna og áherslum. Þegar fyrirtæki kemur í viðskipti til Sjóvá er horft sérstaklega til þess við áhættumat hvernig unnið er að forvörnum hjá því og getur það haft bein áhrif á verðlagningu. Séu forvarna- og öryggismál ekki í góðum farvegi getur það einnig haft áhrif á það hvort fyrirtækið sé yfir höfuð tekið í viðskipti, séu engin áform um að bæta úr þeim málum.
Á þessu sviði höfum við meðal annars lagt áherslu á áhættuskoðanir eigna en á árinu 2023 var farið í 85 skipulagðar áhættuskoðanir til fyrirtækja. Einnig heimsækir hver viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði árlega tugi fyrirtækja þar sem farið er yfir tryggingavernd, tjónatíðni og forvarnir. Við greinum einnig reglulega tölfræði tjóna, sendum skýrslur til viðskiptavina um þróun þeirra og leggjum áherslu á atvikaskráningu, eftirfylgni og forvarnafræðslu fyrir starfsfólk.
Við árlega endurnýjun trygginga fara viðskiptastjórar yfir tryggingavernd fyrirtækja og greina tölfræði tjóna ítarlega. Rýnt er í þróunina og metið hvort ástæða er til að bregðast við henni með einhverjum hætti. Þegar viðskiptastjórar fara í heimsóknir og þegar áhættuskoðanir eru framkvæmdar gefst einnig gott tækifæri til að ræða við forsvarsaðila fyrirtækja um forvarnir, helstu áskoranir og hugmyndir að lausnum og úrbótum. Eins eru haldnir reglulegir fundir um þróun tjóna, farið yfir þau atvik sem flokkuð eru sem „næstum því slys“ og forvarnir. Þá sendum við reglulega markpósta til fyrirtækja um forvarnamál, til dæmis þegar von er á slæmu veðri eða þegar frosthörkur eru í kortunum eða annað sem getur haft áhrif á tiltekna starfsemi.
Áherslur okkar í forvörnum taka alltaf mið af þeim gögnum sem við höfum aðgang að og vísbendingum í samfélaginu hverju sinni. Þannig hafa tíðir brunar í atvinnuhúsnæði með búsetu til dæmis haft áhrif á áherslur okkar, enda dæmi um að slíkir brunar hafi haft skelfilegar afleiðingar. Við höfum því aukið samskipti við eigendur slíks húsnæðis og lagt mikla áherslu á að allir hafi viðeigandi brunavarnir í sínum húsum og að flóttaleiðir séu greiðfærar. Þessari vinnu verður haldið áfram af krafti á árinu 2024.
Fyrirtækjasvið tók þátt í nokkrum ráðstefnum á árinu og má þar nefna Vestnorden, Búnaðarþing, Landsþing Landsbjargar á Akureyri og Björgun EXPO. Þá héldum við fjölsóttan morgunverðarfund á Akureyri um brunavarnir og öryggismenningu fyrirtækja.
Samstarf er lykillinn að árangri í forvörnum og því höfum við lagt mikla áherslu á að eiga í öflugu samstarfi við fjölbreyttan hóp aðila á sviði forvarna og öryggismála; samtaka, stofnana og fyrirtækja. Við höfum sömuleiðis lagt áherslu á að styrkja breiðan hóp sem vinnur af krafti í þessum málaflokki. Árlega veitum við styrki til fjölmargra félagasamtaka og einstaklinga sem vinna að ýmsum góðum málefnum í þágu samfélagsins.
Við leggjum sérstaka áherslu að styrkja verkefni sem hafa forvarnargildi, hvort sem um er að ræða forvarnir gegn slysum og tjónum eða heilsutengdar forvarnir, eins og til dæmis íþróttastarf barna og ungmenna um land allt. Meðal þess sem Sjóvá styrkti á árinu 2023 má nefna Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð krabbameinssjúkra og aðstandenda þeirra, Hinsegin daga, söfnun Grensás fyrir uppbyggingu, Bláa herinn og Samhjálp.
Allt frá stofnun Slysavarnafélagsins Landsbjargar árið 1999 hefur Sjóvá átt farsælt samstarf við samtökin um vátryggingar, forvarnir og öryggismál. Sjóvá tryggir eignir og búnað björgunarsveita um land allt og sér til þess að björgunarfólk samtakanna sem oft starfar við erfiðar aðstæður sé eins vel tryggt og kostur er. Sjóvá er ennfremur einn af aðalstyrktaraðilum samtakanna.
Félögin hafa í gegnum tíðina unnið náið saman að ýmsum öryggismálum og forvarnaverkefnum, stórum sem smáum. Á árinu 2023 komu til landsins seinni tvö skipin af þremur nýjum björgunarskipum sem Sjóvá styrkti Landsbjörgu um kaupin á. Sjóvá lagði 142,5 milljónir króna til kaupanna.
Viðskiptavinir okkar í vildarþjónustunni Stofni njóta ýmissa afslátta og fríðinda m.a. af öryggis- og forvarnavörum, eins og barnabílstólum, slökkvitækjum, reykskynjurum og dekkjum. Á árinu 2023 bættist við 20% afsláttur af öryggisvestum fyrir hestafólk hjá netversluninni Brokk.is, sem selur hágæða öryggisvesti með innbyggðum loftpúðum.
„Dæmin sanna að öryggisvesti með loftpúðum hafa bjargað mörgum mannslífum. Mér finnst þetta persónulega jafnmikilvægt og að vera með hjálm.“