Sjálfbærni

Mannauður

Lengi hefur verið lögð áhersla á að sinna mannauðsmálum af krafti innan Sjóvár, enda ánægja starfsfólks ein af grundvallarforsendunum fyrir ánægju viðskiptavina, og hefur því verið unnið að þessum þáttum samhliða. Öflugur mannauður með fjölbreytta þekkingu og reynslu er bæði grunnurinn að farsælli framtíðarþróun félagsins og framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini.

Stefna Sjóvár í mannauðsmálum er að skapa eftirsóknarverðan vinnustað með hvetjandi starfsumhverfi, sem skapar starfsfólki tækifæri til að dafna og þróast í starfi. Við leggjum mikla áherslu á starfsánægju, framúrskarandi vinnuaðstæður, jafnrétti og fjölbreytileika á öllum sviðum félagsins.

Fjöldi starfsstöðva

11 útibú

9 þjónustu- og umboðsaðilar

Fjöldi starfsmanna 2023

205

þar af fastráðnir 187 og tímabundnir starfsmenn 18

Vinnustaðamenning og starfsánægja

Við leggjum mikið upp úr starfsánægju og öflugri liðsheild. Fyrirtækjamenning Sjóvár einkennist af mikilli þjónustulund og fagmennsku, í bland við vináttu og keppnisskap. Traust og vönduð samskipti milli starfsfólks sem og við viðskiptavini eru höfð í hávegum og vegvísar Sjóvá vísa veginn í öllum samskiptum, þ.e. frumkvæði, einfaldleiki, heiðarleiki og að vera til staðar.

Vinnustaðagreiningar eru lagðar fyrir reglulega til að kanna stöðu mála. Í árlegri könnun Gallup, sem framkvæmd var í nóvember 2023, mældist almenn starfsánægja starfsfólks Sjóvár á topp 10% fyrirtækja á Íslandi og hækkaði hún milli ára. Þættir eins og stolt, traust, umhyggja og ánægja með samstarfsfólk mældust einnig mjög háir eins og oft áður.

Starfsánægja hjá starfsfólki Sjóvár mældist 4,6 af 5 mögulegum í árlegri könnun Gallup

Sjóvá var einnig eitt af 15 fyrirtækjum sem fengu nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki ársins í flokki stórra fyrirtækja í könnun VR um fyrirtæki ársins í maí 2023. Þessi könnun er stærsta vinnumarkaðskönnun á Íslandi og veitir því góðan samanburð við helstu fyrirtæki landsins. Í henni er spurt um þætti eins og líðan í vinnu, aðstæður í starfi og viðhorf til ýmissa þátta á vinnustaðnum. Þetta er í sjötta skipti sem Sjóvá hlýtur þessa viðurkenningu frá stærsta stéttarfélagi starfsfólks síns.

Jafnrétti og jöfn tækifæri

Hjá Sjóvá hefur um árabil verið unnið markvisst að því að tryggja jafnrétti og jöfn tækifæri innan fyrirtækisins. Á hverju ári eru skilgreindar aðgerðir byggðar á jafnréttisstefnu, með það að markmiði að stuðla að jafnri stöðu kynjanna. Þessar aðgerðir ná jafnt til launaákvarðana, ráðninga, stöðuveitinga og annarra tækifæra. Einnig er virkt eftirlit með þróun kjara og launa á markaði til að tryggja samkeppnishæf laun fyrir sambærilega vinnu, menntun og reynslu. Árangurinn af þessum aðgerðum er metinn reglulega með greiningum sem framkvæmdar eru af innri og ytri aðilum.

Sjóvá var eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að fá jafnlaunavottun. Jafnlaunavottunin staðfestir að jafnlaunakerfi okkar, verklag við launaákvarðanir og eftirlit með kynbundnum launamun tryggir að starfsfólki sé ekki mismunað í launum né öðrum kjörum eftir kyni. Launamunur kynjanna hefur ávallt mælst lægri en 2%.

Á árinu 2023 mældist launamunur kynjanna 0,3% hjá Sjóvá.

Stefna Sjóvár er að í stjórn og stjórnendahópi sé leitast við að tryggja fjölbreytileika. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem tekið er mið af við stöðuveitingar. Kynjahlutföll eru höfð í huga við ráðningar og tilnefningar. Árlega er gerð samantekt á kynjahlutföllum meðal stjórnar, nefnda og stjórnenda og birt opinberlega.

Karlar eru

53%

starfsfólks

Konur eru

47%

starfsfólks

Karlar eru

60%

stjórnenda

Konur eru

40%

stjórnenda

Fjölbreytileiki

Það er stefna Sjóvár að gæta jafnréttis milli einstaklinga óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, búsetu og efnahag. Unnið er eftir mannréttindastefnu félagsins, sem yfirfarin var í lok árs 2023 og samþykkt af stjórn í janúar. Stefnan nær til allrar starfsemi Sjóvár; stjórnar, starfsfólks og annarra sem starfa fyrir félagið.

Hjá Sjóvá starfar öflugt teymi fólks með fjölbreyttan bakgrunn, menntun, starfsreynslu og áhugamál, og sinnir þörfum, ráðgjöf og þjónustu við sístækkandi fjölbreyttan hóp viðskiptavina um land allt. Leitast er við að tryggja fjölbreytileika og hafa kynjahlutföll sem jöfnust innan deilda, sviða og verkefnahópa og að samsetning þeirra endurspegli breiða þekkingu, bakgrunn og skoðanir. Árlega eru teknar saman upplýsingar um hlutföll kynja í öllum hópum ásamt yfirliti yfir auglýst störf, umsækjendur og niðurstöðu ráðninga. Unnið er áfram með þessar upplýsingar og brugðist við þar sem tilefni er til.

Á árinu 2023 fékk allt starfsfólk fræðslu um inngildingu og fjölbreytileika og verður ráðist í enn fleiri verkefni tengdu þessu mikilvæga málefni á næstunni.

Starfs- og lífaldur

Hjá Sjóvá er starfmannatryggð mikil og er meðalstarfsaldur rúmlega 10 ár. Um áramót hefur rúmlega þriðjungur starfsfólks starfað skemur en 5 ár, rúmlega þriðjungur 10-15 ár og tæpur þriðjungur hefur starfað lengur en 15 ár. Starfmannahópurinn er líka á breiðu aldursbili, en 45 ár skilja að yngsta og elsta starfsmann okkar. Yfir sumarið fjölgar enn í hópnum, þegar sumarstarfsfólk með fjölbreytta menntun bætist í hópinn og yfir vetrartímann eru nemar í starfsnámi í mörgum deildum félagsins.

Meðalstarfsaldur:

10 ár og 3 mánuðir

Aldursdreifing starfsfólks

Menntun, fræðsla og starfsþróun

Starfsfólk Sjóvár er með fjölbreytta menntun, starfsreynslu og bakgrunn. Mikill metnaður er lagður í að taka vel á móti og þjálfa nýtt starfsfólk á fyrstu mánuðum í starfi. Allt starfsfólk sem er að hefja störf þarf að ljúka ákveðinni skyldufræðslu þar sem dregið er saman allt það helsta sem þarf að kynna sér fyrstu vikur og mánuði í starfi, s.s. starfs- og vinnulýsingar ásamt öryggis- og siðareglum.

Símenntun og viðhald þekkingar er einnig lykilatriði í allri starfsemi Sjóvár. Metnaðarfull fræðsludagskrá er í boði hjá félaginu allt árið um kring og hefur regluleg rafræn fræðsla fyrir allt starfsfólk fest sig í sessi. Á árinu var tekið í gagnið nýtt rafrænt fræðslukerfi sem mun enn efla fræðslustarf innan félagsins. Að auki er starfsfólk hvatt til að vera duglegt að sækja námskeið og ráðstefnur utanhúss sem styrkja það í starfi.

Að jafnaði eru tekin fjögur starfsmanna- og starfsþróunarsamtöl við allt starfsfólk félagsins á hverju ári til að veita stuðning, endurgjöf og fara yfir markmið, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

Jafnvægisvog FKA

Sjóvá er stoltur styrktaraðili Jafnvægisvogarinnar sem er hreyfiaflsverkefni FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu, og forsætisráðuneytisins. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að vera fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Á árlegri ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2023 hlaut Sjóvá viðurkenningu en hana hljóta þau fyrirtæki sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar.

Samræming vinnu og einkalífs

Sjóvá lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að hlúa vel að starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Leitast er við að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum, lengra fæðingarorlofi eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið. Þannig gerir Sjóvá til dæmis starfsfólki, sem starfað hefur hjá félaginu í eitt ár eða lengur, kleift að lengja fæðingarorlof sitt um 6 vikur á 80% af grunnmánaðarlaunum, eftir að lögbundnu fæðingarorlofi lýkur.

Sálfélagslegt áhættumat

Góð vinnuvernd, áhersla á öryggismál og stuðningur við góða andlega og líkamlega heilsu starfsfólks eru mikilvægir þættir í heilbrigðri fyrirtækjamenningu. Árið 2015 varð Sjóvá meðal fyrstu fyrirtækja landsins til að framkvæma sálfélagslegt áhættumat í samræmi við lög um hollustuhætti og vinnuvernd og var það síðast lagt fyrir í maí 2022. Sálfélagslegt áhættumat mælir ýmsa þætti í starfsumhverfi starfsfólks sem geta haft áhrif á vellíðan og öryggi starfsmanna, eins og stjórnun, kröfur starfs, álag, streitu, samskipti, einelti eða áreitni, og eru niðurstöður matsins nýttar við gerð aðgerðaáætlana, fræðslu,  og forvarnarstarfs í þessum málaflokki.

Sjóvá er með skýra forvarnar- og viðbragðsáætlun í eineltis-, áreitni- og ofbeldismálum sem miðar að því að tryggja sálfélagslegt og líkamlegt öryggi starfsfólks. Upplýsingar um verklagið og skilgreiningu á því hvað flokkast sem einelti er að finna í öryggishandbók félagsins sem allt starfsfólks skal kynna sér á fyrstu viku í starfi. Reglulega er haldin fræðsla um þessi málefni fyrir allt starfsfólk.

Framúrskarandi einkunn fyrir vinnuumhverfi og velferð starfsfólks

Í UFS áhættumati Reitunar fékk Sjóvá sem fyrr segir framúrskarandi einkunn, einkunnina A1, fyrir liðinn Félagsþætti, sem nær meðal annars til vinnuumhverfis og velferðar starfsfólks. Sjóvá hlaut fullt hús stiga fyrir vinnuumhverfi og 96 af 100 fyrir liðinn velferð starfsfólks og viðskiptaánægju. Í niðurstöðum Reitunar segir að rík áhersla sé lögð á jafnrétti og að stuðla að jákvæðu vinnustaðaumhverfi hjá Sjóvá, með fjölbreyttri þjónustu og virkri fræðslu til starfsfólks. Sjá nánar um mat Reitunar hér.