Siðareglur Sjóvár eru grunnviðmið starfsfólks fyrir góða viðskiptahætti og siðferði. Þær eiga að stuðla að því að starfsemin einkennist af fagmennsku og heiðarleika og að traust ríki milli félagsins, viðskiptavina, starfsfólks, þjónustuaðila og birgja auk stjórnvalda og eftirlitsstofnana, hluthafa og samfélagsins alls. Þær eru viðbót við opinbert regluverk og verklagsreglur og leiðbeinandi á þeim sviðum sem lög og reglur ná ekki til.
Sjóvá leggur í starfsemi sinni áherslu á að viðhafa heiðarlega viðskiptahætti, sýna heilindi og trúverðugleika og forðast viðskipti þar sem siðferðileg álitaefni kunna að koma upp. Í siðareglum Sjóvá og stefnu um varnir gegn mútum og spillingu er kveðið á um vernd uppljóstrara og áréttað að starfsfólk og aðrir skuli ekki gjalda þess að tilkynna um óreiðu, misgjörðir, siðferðislega ámælisvert og/eða ólöglegt athæfi.
Í lok árs 2022 voru gefnar út siðareglur birgja sem er ætlað að stuðla að og tryggja að kröfur um góða viðskiptahætti og siðferði séu uppfylltar hjá birgjum og í allri virðiskeðjunni. Sjóvá fer fram á að birgjar staðfesti fylgni við siðareglurnar með skriflegri staðfestingu. Siðareglur birgja eru í nokkrum liðum sem flokkast undir mannréttindi, vinnumarkað, umhverfismál og viðskiptahætti. Með því að undirrita þær skuldbindur birgir sig t.d. til að hafa í heiðri grundvallarmannréttindi, tryggja öryggi starfsfólks og stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins.
undirrituðu siðareglur birgja á árinu
Á árinu 2023 var hafin vinna við að óska staðfestingar hjá birgjum og undirrituðu 100 birgjar siðareglurnar, þar með taldir helstu samstarfsaðilar okkar á verkstæðum og verktakar sem sinna eignatjónum. Þessari vinnu verður haldið áfram á árinu 2024 og verður farið fram á það við fleiri birgja að þeir undirriti siðareglurnar. Á árinu 2024 stendur einnig til að framkvæma ítarlegra áhættumat á stærstu birgjum Sjóvár.
„Gott samstarf við viðgerðaraðila í bílaviðgerðum er okkur afar verðmætt og mikilvægt til að tryggja viðskiptavinum sem besta þjónustu við tjón á ökutækjum. Við heimsækjum viðgerðaraðila reglulega, meðal annars til að skoða aðstæður og aðbúnað og einfaldlega til að styrkja sambandið við þessa mikilvægu samstarfsaðila. Þá sendum við þeim reglulega upplýsingar í fréttabréfi. Það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu jákvæð viðbrögð við fengum frá forsvarsmönnum verkstæða við siðareglum birgja og hlökkum við til að halda áfram að byggja þetta góða samstarf upp.“
Í mannréttindastefnu félagsins lýsir félagið skuldbindingum sínum um að hafa í heiðri grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í alþjóðasamningum, en stefnan var endurskoðuð í upphafi árs 2024. Stefnu um fjölbreytileika er lýst í gildandi mannréttindastefnu þar sem kveðið er á um áherslur og aðgerðir í jafnréttis- og mannréttindamálum. Markmið stefnunnar er að tryggja jafna stöðu, tækifæri og fjölbreytileika á öllum stigum og sviðum félagsins, með jafnlaunastefnu, tækifærum til starfsþjálfunar og endurmenntunar og til þess að bjóða upp á aðlaðandi starfsumhverfi. Stefnan er einnig skuldbinding Sjóvár um að vinna að stöðugum umbótum í þessum málaflokkum. Markmið stefnunnar er einnig að stuðla að velferð, heilsu og öryggi starfsfólks og annarra í virðiskeðju félagsins.
Félagið leggur bann við hvers konar nauðungarvinnu og öllum birtingarmyndum mansals. Vinnutími skal vera í samræmi við landslög og kjarasamninga og leitast félagið við að starfsfólk geti samræmt starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Félagið virðir félagafrelsi og valfrelsi til að standa utan stéttarfélaga.
Stefna um varnir gegn mútum og spillingu var sett á árinu 2023 og uppfærð útgáfa gefin út í byrjun árs 2024. Ekkert umburðarlyndi er hjá Sjóvá gagnvart mútum og spillingu og skulu starfsmenn og aðrir aðilar sem koma fram fyrir hönd félagsins starfa á faglegan, sanngjarnan og heiðarlegan hátt í öllum viðskiptum og viðskiptasamböndum. Sjóvá skuldbindur sig til þess að fylgja ákvæðum laga um varnir gegn peningaþvætti, halda nákvæmt bókhald og skjalaskrár og forðast að eiga í viðskiptum við eða tengja Sjóvá við aðila sem virða ekki gildi og stefnu Sjóvár hvað varðar varnir gegn mútum og spillingu og geta skaðað orðspor félagsins. Fyrirhuguð framkvæmd áhættumats á birgjum miðar einnig að því að minnka áhættu sem snýr að þessu.
Hjá Sjóvá hafa engin mál komið upp sem varða mútur eða spillingu. Sjóvá veitir enga styrki til stjórnmálaflokka. Félagið er aðili að Samtökum fjármálafyrirtækja sem er sameiginlegur vettvangur fjármálafyrirtækja. Sjóvá hefur ýmist komið á framfæri ábendingum við lagafrumvörp og umsögnum á vettvangi samtakanna eða sjálfstætt.
Sjóvá hefur sett sér skattastefnu sem lýsir því hvernig tryggt er að staðið er við allar skyldur samstæðunnar varðandi skattamál og áhættum er lúta að skattamálum er stýrt. Stefnan var sett í janúar 2024. Í umfjöllun um ófjárhagslegar upplýsingar, sem fylgir ársreikningi samstæðunnar er gerð grein fyrir því hver skattastefna félagsins er, hvernig tekjuskattsskuldbinding samstæðunnar er samansett auk þess hvað félagið greiðir í skatta.
Sjóvá tryggir jafnan aðgang fjárfesta að réttum og áreiðanlegum upplýsum með reglubundinni upplýsingagjöf í samræmi við lög og reglur sem gilda um opinbera upplýsingaskyldu og upplýsingagjöf félaga sem skráð eru á aðallista í Kauphöll Íslands.
Á árinu voru stöðluð upplýsingaskjöl allra trygginga sem við bjóðum yfirfarin. Tilgangurinn með þessum skjölum er að auka gagnsæi með því að setja fram á skýran hátt helstu atriðin sem skipta máli varðandi einstaka tryggingar og auðvelda viðskiptavinum þannig að skilja þær og bera þær saman við vörur annarra félaga. Tryggingafélögum er skylt lögum samkvæmt að birta upplýsingar með þessum hætti fyrir skaðatryggingar en tekin var ákvörðun um að gefa líka út sambærileg skjöl fyrir þær persónutryggingar sem Sjóvá býður upp á. Upplýsingaskjölin eru aðgengileg á viðeigandi vörusíðum á Sjóvá.is, ásamt skilmálum.
Sjóvá hefur um hríð lagt sérstaka áherslu á að tala um tryggingar á skýran og einfaldan hátt, til að auðvelda viðskiptavinum skilning á vörunum sem eru í boði. Þannig eiga þeir auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun um kaup á tryggingum, og átta sig sömuleiðis betur á því hvenær þeir kunna mögulega að hafa þörf fyrir meiri vernd í framtíðinni eða minni. Eins átta viðskiptavinir sem betur á því við hvaða aðstæður þeir kunna að eiga rétt á bótum úr hverri tryggingu. Starfsfólk fær góða þjálfun til að geta veitt faglega ráðgjöf til viðskiptavina og eins er áhersla lögð á að hafa upplýsingar aðgengilegar og sem auðskiljanlegastar á Sjóvá.is