Þess vegna höfum við lagt áherslu á að setja okkur í samband við viðskiptavini af fyrra bragði til að fara yfir málin með þeim og ganga úr skugga um að þeir séu rétt tryggðir miðað við aðstæður hverju sinni og vel upplýstir um sína stöðu ef þeir verða fyrir tjóni. Með þessum hætti fylgjum við eftir hlutverki okkar að tryggja verðmætin í lífi fólks og vinnum eftir framtíðarsýn okkar um að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð.
einstaklingar voru með tryggingar hjá okkur í lok árs 2023
Um mitt ár 2023 hófum við að bjóða nýja tryggingu fyrir ungt fólk sem býr í foreldrahúsum. Þörf hafði myndast fyrir tryggingu af þessu tagi þar sem ungt fólk býr í auknum mæli lengur hjá foreldrum sínum. Markmiðið er að bjóða þeim valkost í tryggingum sem tryggir sérstaklega þau verðmæti sem eru þeim mikilvægust. Þeir sem kaupa Snjalltryggingu sem hluta af tryggingapakka njóta einnig betri kjara sem viðskiptavinir í Stofni.
Með Snjalltryggingu eykst einnig sjálfstæði unga fólksins þar sem þau þurfa ekki að leita í heimilistryggingu foreldra sinna verði þeirra persónulegu munir fyrir tjóni. Tryggingin er ekki jafn víðtæk og hefðbundin heimilistrygging en afskriftir í henni eru hægari og eigin áhætta sömuleiðis lægri.
Viðtökur hafa verið góðar og viðskiptavinir hafa verið þakklátir fyrir einfalda og auðskiljanlega vöru sem beint er að þörfum þessa markhóps. Við erum spennt fyrir áframhaldandi þróun þessarar tryggingar og sjáum mikla möguleika á frekari útfærslu hennar á næstu misserum.
Sjóvá hefur lengi haldið úti vildarþjónustunni Stofni fyrir dygga viðskiptavini sína, en til að komast í Stofn þarf viðskiptavinur að vera með Fjölskylduvernd og tvær aðrar tilteknar tryggingar. Fjöldi viðskiptavina í Stofni hefur vaxið jafnt og þétt frá því að vildarþjónustan var sett á laggirnar fyrir 29 árum. Í lok árs 2023 voru 42.657 fjölskyldur í Stofni, en af þeim hafa nær 1.900 fjölskyldur verið í Stofni öll árin sem vildarþjónustan hefur verið til.
Sjóvá hefur lengi endurgreitt tjónlausum viðskiptavinum í vildarþjónustunni Stofni hluta iðgjalda sinna og erum við eina tryggingafélagið á íslenskum markaði sem gerir slíkt.
Á árinu 2023 fengu
Stofnendurgreiðslu frá okkur
Samtals voru
endurgreiddar á árinu 2023 til tjónlausra viðskiptavina í Stofni
Eins og þekkt er jukust útgjöld heimilanna töluvert á árinu og því eðlilegt að margir færu að rýna í þau og skoða hvort einhvers staðar væri hægt að spara. Við urðum vör við að einhverjir viðskiptavina okkar íhuguðu hvort mögulega væri tilefni til að segja upp líf- og sjúkdómatryggingum sínum, til þess að minnka mánaðarleg útgjöld heimilisins. Við þessar aðstæður, sem aðrar, er afar mikilvægt að veita viðskiptavinum framúrskarandi góða ráðgjöf, þannig að þeir átti sig að fullu á því hvað felst í því að segja upp þessum tryggingum.
Líf- og sjúkdómatryggingar veita afar mikilvæga vernd fyrir þá sem hafa fyrir öðrum að sjá og hafa fjárhagslegar skuldbindingar. Mörg dæmi hafa sannað hversu miklu það getur breytt að vera með sjúkdómatryggingu ef alvarleg veikindi ber að garði og fólk verður fyrir tekjuskerðingu í lengri tíma, um leið og útgjöld aukast. Sömu sögu er að segja um líftryggingar, sem hafa til dæmis gert maka kleift að búa áfram í sama húsnæði með fjölskylduna eftir fráfall þess sem var tryggður.
Ef líf- og sjúkdómatryggingum er sagt upp er alls ekki sjálfgefið að það verði einfalt að verða sér úti um sambærilega tryggingu aftur. Þess vegna mælum við ekki með því að fólk segi þeim upp nema að vandlega athuguðu máli. Í samtölum okkar við viðskiptavini fórum við því vel yfir þessa þætti og bentum einnig á að það væri alltaf betra að lækka fjárhæðirnar í tryggingunum frekar en að segja þeim upp, ef nauðsynlegt væri að lækka iðgjöldin.
„Hef verið með allt mitt tryggt hjá Sjóvá frá því að ég byrjaði að búa fyrir 50 árum og hef alltaf fengið framúrskarandi þjónustu og almennilegheit hérna á Akranesi.“
„Glaðlegt og gott viðmót ásamt kunnáttu um vöruna sem er verið að selja skiptir mjög miklu máli. Þá þjónustu fékk ég.“
„Öll mín kynni við Sjóvá hafa verið mjög jákvæð í gegnum árin. Hef ávallt verið tryggð hjá ykkur og það mun þurfa mikið til að ég færi mig yfir í annað tryggingarfélag.“
Í lok árs höfðu skapast fordæmalausar aðstæður í Grindavík, íbúar höfðu þurft að yfirgefa heimili sín og mikið óvissuástand hafði skapast. Mikill fjöldi Grindvíkinga er tryggður hjá Sjóvá, enda höfum við lengi rekið öfluga þjónustuskrifstofu á Víkurbraut þar sem umboðsmaður okkar hefur staðið vaktina.
Vegna þessa miklu óvissuástands var í lok árs tekin ákvörðun um að endurgreiða öllum viðskiptavinum okkar í Grindavík iðgjöld þeirra fyrir desembermánuð 2023. Með þessu vildum við létta undir hjá einstaklingum og fjölskyldum sem stóðu frammi fyrir gerbreyttum veruleika. Samhliða þessu hringdum við í viðskiptavini okkar sem búsettir eru í Grindavík til að yfirfara tryggingavernd þeirra og veita þeim ráðgjöf á þessum óvissutímum. Alls fengu 1.100 viðskiptavinir í Grindavík iðgjöld sín endurgreidd og nam heildarfjárhæðin 30 milljónum króna. Í ársbyrjun 2024 var síðan tilkynnt um frekari aðgerðir fyrir viðskiptavini í Grindavík, enda enn mikil óvissa ríkjandi.
Á undanförnum árum hefur umboðsmaður okkar í Grindavík og starfsfólk útibúsins í Reykjanesbæ verið öflugt í að vekja athygli á mikilvægi þess að fólk sé vel tryggt, í samræmi við aðstæður sínar, komi til tjóns af völdum náttúruhamfara. Mikil umræða hefur einnig skapast í samfélaginu almennt um hvernig fólk er tryggt fyrir slíku tjóni, sem vonandi hefur orðið til að auka vitund fólks um hlutverk Náttúruhamfaratryggingar Íslands og trygginga almennt.