Með markvissri nýtingu þeirra gagna sem við höfum aðgang að og reglulegu samtali við fyrirtæki getum við haft áhrif sem skipta fyrirtækin og samfélagið allt máli og því höfum við lagt ríka áherslu á þessa vinnu. Nánar er fjallað um forvarnir með fyrirtækjum í kafla um forvarnir og öruggara samfélag.
Með aukinni samvinnu milli fyrirtækjaráðgjafar í Kringlunni 5, útibúa og þjónustuskrifstofa höfum við einnig geta veitt fyrirtækjum okkar um allt land enn betri þjónustu, líkt og einstaklingum í viðskiptum. Munum við halda áfram á þeirri braut á nýju ári, með það að leiðarljósi að veita fyrirtækjum okkar framúrskarandi þjónustu.
fyrirtæki voru með tryggingar hjá okkur í lok árs 2023
Við héldum áfram að bæta stafræna þjónustu okkar við fyrirtæki í viðskiptum og þróa áfram lausnir á því sviði. Haustið 2022 settum við í loftið stafrænan fyrirtækjaráðgjafa þar sem atvinnurekendur og einyrkjar geta með einföldum hætti fengið greiningu á því hvaða tryggingum reksturinn þeirra þarf á að halda, hvar og hvenær sem er. Á árinu 2023 sáum við mikla aukningu á umsóknum í gegnum fyrirtækjaráðgjafann og fór hún stigvaxandi eftir því sem leið á árið. Það hefur því verið ánægjulegt að sjá hvernig einyrkjar, lítil og meðalstór fyrirtæki hafa tekið þessari þjónustu fagnandi, enda auðveldar hún alla upplýsingaöflun og styttir söluferlið svo um munar.
Íslensk fyrirtæki stóðu frammi fyrir margvíslegum áskorunum á árinu. Við slíkar aðstæður er okkar hlutverk að vera til staðar og ráðleggja þeim um vátryggingavernd. Þannig er afar mikilvægt að veita góða ráðgjöf til fyrirtækja sem þurfa til dæmis tímabundið að draga saman seglin, þannig að þau séu með tryggingar sem endurspegla umfang og eðli starfseminnar. Mikilvægt er að forsvarsmenn fyrirtækja átti sig á því hvaða vernd er falin í tryggingum þeirra og séu þannig meðvitaðir um hvaða aðstæður geti kallað á frekari breytingar á verndinni. Aftur skiptir hér virkt og gott samtal okkar við þessa aðila öllu máli.
Ferðaþjónustan tók mikinn kipp á árinu 2023, sem reyndist vera næststærsta árið í íslenskri ferðaþjónustu frá upphafi mælinga. Ánægjulegt var að fylgjast með þessum vexti, ekki hvað síst í ljósi þess hvernig heimsfaraldurinn hafði leikið atvinnugreinina árin á undan. Á meðan faraldrinum stóð áttum við í miklum samskiptum við ferðaþjónustufyrirtækin sem þá neyddust eðli málsins samkvæmt til að draga saman í rekstrinum og gerðar voru viðeigandi breytingar á tryggingavernd þeirra. Nú þegar reksturinn hefur tekið við sér svo um munar hefur því verið nauðsynlegt að yfirfara tryggingar ferðaþjónustufyrirtækja aftur, til að þær endurspegli nýjar aðstæður. Við lögðum því ríka áherslu á að vera í góðum samskiptum við þessa aðila á árinu.
„Íslensk fyrirtæki þurfa mörg að vera mjög sveigjanleg til að geta mætt krefjandi aðstæðum, stækkað hratt eða dregið saman, eins og dæmin sanna. Við höfum lagt mikla áherslu á að setja okkur í samband við þá sem við vitum að standa frammi fyrir breytingum í rekstri sem gætu kallað á breytingar á tryggingavernd. Ánægja hefur verið með þetta hjá viðskiptavinum okkar og það gleður okkur líka að geta verið til staðar fyrir fyrirtækin okkar með þessum hætti og veitt þeim upplýsandi ráðgjöf og góða þjónustu. “
Mikill fjöldi fyrirtækja í Grindavík er tryggður hjá Sjóvá en öll stóðu þau frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum í lok ársins og gera enn, eins og þekkt er. Við áttum marga fundi með starfsfólki þessara fyrirtækja á árinu til að veita þeim ráðgjöf, upplýsingar og stuðning. Áður en eldsumbrotin hófust og bærinn var rýmdur höfðum við heimsótt fyrirtæki í Grindavík og farið vel yfir tryggingarnar með þeim í ljósi líklegra atburða og veitt þeim ráðgjöf. Samtal okkar við þær opinberu stofnanir sem tengjast þessum málum, líkt og Náttúruhamfaratryggingu Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, var einnig mikið og gott og gerði okkur kleift að veita viðskiptavinum okkar enn betri ráðgjöf. Þessar hamfarir eru vitaskuld langt frá því að vera yfirstaðnar, sem og það mikla óvissuástand sem þeim fylgir. Við munum því að sjálfsögðu halda áfram að vera í góðu sambandi við þennan hóp viðskiptavina og styðja við hann.
Á vormánuðum skrifuðu Sjóvá og Bændasamtök Íslands undir samning um svokallaða staðgengilstryggingu fyrir alla félagsmenn samtakanna á aldrinum 18 – 74 ára. Staðgengilstrygging greiðir bændum fasta fjárhæð á mánuði í sex mánuði, til að mæta útlögðum kostnaði vegna staðgengils eða aðkeyptrar þjónustu, ef þeir verða óvinnufærir af völdum veikinda eða slysa. Samningurinn og nýja tryggingin voru kynnt fyrir bændum á Búnaðarþingi í lok mars, en tryggingin tók gildi þann 1. apríl.